Lífið

Kleif hæstu byggingu í heimi

Franska ofurhuganum, Alain Robert, sem kallaður er franski kóngulóarmaðurinn, tókst að klífa hæstu byggingu í heimi, í Tapei á Tævan í morgun. Aðstæður til afreksins voru gríðarlega erfiðar, mikill vindur og rigning, en Robert lét það ekki á sig fá. Klæddur í regnjakka og í góðum klifurskóm tókst hann á við bygginguna, en hún er hundrað og einnar hæðar skrifstofubygging og fimm hundruð og átta metra há. Það tók ofurhugann um fjórar klukkustundir að klífa bygginguna. Þegar Alain Robert, sem er 42 ára, komst á toppinn brutust út mikil fagnaðarlæti og sagðist hann mjög þreyttur, en ánægður, þegar ljóst varð að honum hafði tekist ætlunarverk sitt. Fjölmargir fylgdust með og hvöttu Robert áfram. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem franski kóngulóarmaðurinn tekur upp á því að klífa stórbyggingar, því honum hefur áður tekist að klífa Empire State bygginguna í New York og Eiffel-turninn í París. Hann hefur oft verið gagnrýndur fyrir glæfraskapinn þar sem hann hefur ekki alltaf óskað eftir leyfi yfirvalda til að klífa háhýsin, auk þess sem öryggisráðstafanir hans hafa þótt af skornum skammti. Í þetta skiptið ákvað Robert hins vegar að festa reipi við klifurbúnað sinn, allan þann tíma sem það tók fyrir hann að klífa upp hundrað og eins hæða bygginguna, en reipið notaði hann til að toga sig upp, nánast alla leiðina. Hann segist ætla að takast á við bygginguna aftur innan skamms, og þá án þess að nota reipi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.