Innlent

Náttúran aðal aðdráttaraflið

Hann er vel menntaður, vel stæður og hefur fyrst og fremst áhuga á náttúru Íslands. Þannig hljómar lýsingin á hinum dæmigerða, erlenda ferðamanni samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Ferðamálaráðs. Hinn týpíski erlendi ferðamaður hefur lítið breyst á þeim átta árum sem liðin eru frá því Ferðamálaráð hóf að gera kannanir meðal ferðamanna, en á tímabilinu hefur þeim þó fjölgað um 80 prósent. Um 2500 tóku þátt í könnuninni í ár og eins og áður nefna langflestir svarenda náttúruna og landið þegar spurt er hvaðan hugmynd að Íslandsheimsókn hafi komið. 20 prósent gestanna höfðu komið áður og 80 prósent vilja koma aftur. Langflestir, eða um 60 af hundraði, höfðu ekki séð neina umfjöllun um Ísland áður en haldið var í ferðina. Ríflega helmingur gestanna sagðist vera með tekjur yfir meðallagi eða háar tekjur miðað við meðaltekjur í heimalandi. Greinilegur aldurs- og tekjumunur kom fram eftir því með hvaða flugfélagi þeir ferðuðust. Þannig var meðalaldur svarenda sem nýttu sér þjónustu Iceland Express tæplega 36 ár en í kringum 43 ár hjá farþegum Flugleiða. Þá eru tekjur þeirra sem fljúga með Flugleiðum heldur hærri en farþega Iceland Express. Flestir koma hingað í frí og var meðaldvalarlengd hér á landi um tíu og hálfur dagur. Almenn aukning er í nýtingu afþreyingar af ýmsu tagi, en sem fyrr er náttúruskoðun og sund efst á vinsældarlistanum. Geysir og Þingvellir eru eins og áður þeir staðir sem flestir heimsóttu, enda landið og náttúran þeir þættir sem ferðamennirnir meta jákvæðasta við Ísland. Næst í röðinni er fólkið og síðan þjónustan. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að sem fyrr telja erlendir ferðamenn verðlag hér á landi neikvæðasta þáttinn, og svo veðrið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×