Erlent

Nýtt friðarsamkomulag á N-Írlandi

Endanlegt friðarsamkomulag á Norður-Írlandi liggur fyrir en ljósmyndir koma í veg fyrir að það sé undirritað. Talsmenn Írska lýðveldishersins segja ekki koma til greina að ljósmyndir verði teknar af því þegar vopn lýðveldishersins verða eyðilögð, og það geta mótmælendur ekki sætt sig við. Breskir fjölmiðlar segja friðarsamkomulagið sem Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, kynntu í gær vera til marks um hversu lítið ber í raun í milli deilenda. Nánast öll deilumál hafi verið leyst, málum hafi verið miðlað og fátt standi í vegi fyrir því að heimastjórn verði á ný komið á. En það er óvíst hverju þetta skiptir því enn er eftir eitt mál óleyst og það kemur í veg fyrir að samkomulagið gangi í gildi. Forsvarsmenn Írska lýðveldishersins, IRA, neita að fallast á eitt lykilskilyrðið en samkvæmt því á herinn að leggja niður vopn og senda inn myndir af þeim vopnum sem eru eyðilögð. Leiðtogar lýðveldishersins vilja alls ekki gangast inn á þetta og segja það niðurlægjandi fyrir herinn að taka slíkar myndir. Mótmælendur, einkum flokkur öfgaklerksins Iands Paisleys, þvertaka fyrir að nóg sé að vitni séu að því þegar vopnin eru eyðilögð og krefjast ljósmynda. Utanríkisráðherra Írlands sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið að hugsanlega óttuðust forystumenn lýðveldishersins að Paisley notaði myndirnar til að reyna að sýna fram á að hann hefði borið sigurorð af hernum. Þrátt fyrir þessi vandræði segja bæði Blair og Ahern deginum ljósara að samkomulagi gangi að lokum í gildi, því engin önnur leið sé fær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×