Innlent

Uppsafnaðar skuldir gamla skólans

Stjórnendur Tækniháskóla Íslands segja bága fjárhagsstöðu skólans tilkomna vegna uppsafnaðra skulda gamla Tækniskólans sem fallið hafi á herðar Tækniháskólans þegar hann var stofnaður um mitt ár 2002. Í frumvarpi til laga um afnám Tækniháskólans segir að skólinn hafi verið rekinn með halla frá því að hann var stofnaður um mitt ár 2002. Stjórnendur skólans segja hann hins vegar hafa verið rekinn hallalausan frá árinu 2002 og gert sé ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu á þessu ári. Í tilkynningunni segir orðrétt: Frumvarp til laga um afnám laga nr. 52/2002 um Tækniháskóla Íslands hefur verið lagt fram á Alþingi. Í greinargerð frumvarpsins sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gerir við frumvarpið segir, m.a.:„Tækniháskóli Íslands hefur verið rekinn með halla frá því að hann var stofnaður um mitt ár 2002 og nam uppsafnaður halli 127 m.kr. í árslok 2003. Í kostnaðarumsögn þessari er gert ráð fyrir að hallinn verði á bilinu 110–125 m.kr. um mitt ár 2005 og að hann færist ekki yfir á nýjan skóla.“Eins og fram kom í ræðu menntamálaráðherra á Alþingi 7. desember s.l, þegar hún mælti fyrir frumvarpinu, þá lagði hún áherslu á að uppsafnaður halli skólans er tilkominn vegna gamla Tækniskólans og er það vegna halla, biðlauna og óhagstæðs húsnæðis sem Tækniháskólinn tók yfir við stofnun hans.Stjórnendur Tækniháskóla Íslands vilja taka fram að þegar Tækniháskólinn var stofnaður um mitt ár 2002, tók hann við öllum skuldbindingum Tækniskólans, þar með talið miklum rekstrarhalla, óhagstæðu húsnæði og biðlaunakostnaði starfsmanna. Uppsafnaður halli Tækniskólans hefur ekki enn verið greiddur að fullu. Stjórnendur Tækniháskólans hafa lagt mikla vinnu í það að snúa rekstri skólans við og hefur það tekist mjög vel. Að teknu tilliti til fyrri skuldbindinga hefur Tækniháskólinn verið rekinn hallalaus frá stofnun hans og gera áætlanir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu árið 2004.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×