Sport

Tilboðið í Emil var grín

Hollenska liðið Feyneoord sendi FH-ingum tilboð í Emil Hallfreðsson á mánudaginn en Emil var til reynslu hjá félaginu á dögunum. FH-ingar voru ekki sáttir við tilboðið og sendu hollenska liðinu gagntilboð í gær. Pétur Stephensen, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar FH, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að tilboð Feyenoord hefði verið grín og að FH stæði ekki í því að gefa leikmenn frá sér. "Auðvitað viljum við að Emil fari út en við verðum að hugsa um hag félagsins líka. Það er auðséð að munurinn á kaupverði er mikill á milli Hollands og Englands," sagði Pétur, sem ætti að vita hvað hann syngur eftir að FH-ingar voru búnir að komast að samkomulagi við enska úrvalsdeildarliðið Everton um kaup á Emil fyrir skömmu en þau kaup duttu, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, upp fyrir vegna of hárra launakrafna Emils og umboðsmanns hans, Arnórs Guðjohnsen. Pétur sagðist vonast til að fulltrúi Feyenoord kæmi til landsins á næstu dögum og að málið yrði klárað fljótt og örugglega. Pétur sagði jafnframt að Tottenham vildi fá Emil aftur til æfinga og hefði sett upp leik fyrir hann 5. desember. Hvort Emil fer út ræðst væntanlega af því hvort samningar nást milli FH og Feyenoord.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×