Sport

Þyngsti dómur í sögu NBA

Þyngsti dómur í sögu NBA-körfuboltans féll í fyrrakvöld þegar David Stern, framkvæmdastjóri deildarinnar, dæmdi Ron Artest hjá Indiana Pacers í bann út tímabilið fyrir slagsmál við áhorfendur í leik Pacers gegn Detroit Pistons. Artest missir af þeim 73 leikjum sem eftir eru í vetur. Aðrir leikmenn Indiana sem tóku þátt í slagsmálunum fengu vægari dóma. Jermaine O´Neal fékk 25 leikja bann fyrir að kýla áhorfanda sem hætti sér inn á völlinn. Stephen Jackson fékk 30 leikja bann fyrir að slást í för með Artest og láta höggin dynja á áhorfendum. Anthony Johnson fékk 5 leikja bann. Ben Wallace hjá Detroit 6 leikja bann fyrir að hrinda Ron Artest eftir að sá síðarnefndi braut harkalega á Wallace. Þá fengu Elden Campbell, Derrick, Coleman, Chauncey Billups og Reggie Miller sjálfkrafa eins leiks bann fyrir að yfirgefa varamannabekkina. Dómur Artest er þyngri en sá sem féll á hendur Latrell Sprewell, þáverandi leikmanns Golden State Warriors, en hann fékk 68 leikja bann fyrir að ráðast á þjálfara sinn á æfingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×