Sport

Keane sá besti hjá Ferguson

Alex Ferguson, sem hefur verið knattspyrnustjóri Manchester United undanfarin átján ár, segir að Írinn Roy Keane sé besti leikmaðurinn sem hann hefur haft undir sinni stjórn þess átján ár. Ferguson hefur marga fjöruna sopið á þessum átján árum og séð leikmenn eins og Peter Schmeichel, Eric Cantona, David Beckham og Bryan Robson koma og fara á þeim tíma en hann er samt ekki í vafa um að Keane er besti leikmaðurinn sem hann hefur haft. "Hann er minn besti maður. Það er ekki bara hversu góður leikmaður hann er heldur líka viljastyrkurinn og áhrifin sem hann hefur á aðra leikmenn. Það eru margir hlutir sem gera menn frábæra og hann hefur þá alla," sagði Ferguson sem hefur einnig trú á því að Keane geti orðið framúrskarandi knattspyrnustjóri. "Hann hefur allt til að bera til að verða frábær knattspyrnustjóri. Hann er að taka skref í rétta átt með því að verða sér úti um réttindi en ég veit ekki hvort hann hefur áhuga á að vera knattspyrnustjóri. Ungir menn nú til dags eru svo ríkir að þeir þurfa ekki að gera handtak eftir að ferlinum lýkur," sagði Ferguson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×