Erlent

Þúsundir sjálfboðaliða við smölun

Forsetaframbjóðendurnir í Bandaríkjunum og kosningastjórnar þeirra reyna nú allt hvað þeir geta til að sannfæra kjósendur um að mæta á kjörstað á morgun. Ingólfur Bjarni Sigfússon skrifar frá Washington. Þúsundir sjálfboðaliða og starfsmanna kosningamiðstöðva fara nú mikinn í þeim ríkjum þar sem óvissan er ennþá mikil. Þar ríður á að allir kjósi og kjósi rétt og því er lögð mikil áhersla á að rétta fólkið mæti á kjörstaði. Metfjárhæðum er eytt í þetta verkefni en talið er að kosningamiðstöðvar kosti um þrjú hundruð milljónum dollara til þessa starfa, eða sem nemur ríflega 20 milljörðum króna. Annars eins fjáraustur hefur aldei sést áður. En það er beitt fleiri brögðum og óskemmtilegri. Frá Flórída berast fregnir af því að háskólanemar, sem skrifað hafi undir áskoranir þess efnis að maríjúana verði leyft eða refsingar barnaníðinga verði hertar, hafi án þess að átta sig á því verið að breyta kosningaskráningu sinni með sömu undirskrift. Margir þeirra hafa nú áttað sig á því að þeir eru allt í einu skráðir sem repúblíkanar en ekki demókratar og að heimilisföngum hefur verið breytt - sem gæti þýtt að viðkomandi nemar gætu ekki kosið á morgun. Í Pennsylvaníu var dreift miðum þar sem á stóð að búist væri við svo mikilli kosningaþátttöku að ákveðið hefði verið að lengja kosningarnar um einn dag. Repúblíkanar ættu að kjósa á þriðjudag og demókratar á miðvikudag. Lögreglan hefur hafið rannsókn á málinu. Ný könnun CBS sýnir að kjósendur hafa miklar áhyggjur af þessum fregnum, sem og öðrum af biluðum kjörvélum og týndum atkvæðum. Með hliðsjón af því hversu mjótt er á mununum í skoðanakönnunum spyrja sig margir hér vestra nú ekki hver heldur hvort einhver muni bera sigur úr bítum á morgun.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×