Erlent

Allt kapp lagt á kjörsókn

Svo mjótt er á mununum í forsetakosningunum í Bandaríkjunum að kosningaþátttakan er talin skipta sköpum. Flokkarnir leggja allt í sölurnar til að tryggja að fólk mæti á kjörstaði. Óteljandi fylgiskannanir birtast á hverjum degi í Bandaríkjunum en að öllu jöfnu er mest mark tekið á þremur til fjórum óháðum könnunum sem stærstu fjölmiðlar og skoðanafyrirtæki landsins standa fyrir. Þegar þessar kannanir eru skoðaðar kemur í ljós nokkuð mismunandi niðurstaða. Ein segir að Kerry sé með meira fylgi en Bush, önnur að fylgið mælist jafnt og sú þriðja að Bush sé með forskot á Kerry. Þegar allar óháðar kannanir sem birtust í Bandaríkjunum í dag eru teknar saman hefur Bush forskot í kjörmannaráðinu með 263 kjörmenn á móti 248 kjörmönnum sem fylgja Kerry. Bush mælist hins vegar ekki með nægan fjölda kjörmanna til að vinna, því atkvæði tuttugu og sjö kjörmanna eru enn óráðin. Yfirvöld í Bandaríkjunum segja að þrátt fyrir nýtt myndband Osama bin Ladens, þurfi fólk ekki að óttast að hryðjuverkahópar láti til skarar skríða á kosningadaginn. Bandaríkjamenn eru því hvattir til að mæta á kjörstaði. Það er svo sem ekki að furða að lögð sé áhersla á mætingu, því kosningaþátttakan getur skipt sköpum þegar fylgið mælist svona jafnt. Úrslitin geta því hreinlega ráðist af því hversu góðir flokkarnir eru að smala sínum mönnum á kjörstaði. Reyndar hafa aldrei fleiri Bandaríkjamenn nýtt sér tækifærið til að kjósa utankjörfundar og búist er við að allt að 25% verði þegar búnir að kjósa þegar kosningadagurinn rennur upp á þriðjudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×