Erlent

Enn eitt klúðrið skekur Flórída

Spennan í kringum bandarísku forsetakosningarnar jókst enn í Flórída þegar í ljós kom að þúsundir kjörseðla sem senda átti til fólks sem vildi greiða atkvæði utankjörfundar höfðu týnst. Dómsmálaráðuneyti Flórída rannsakaði hvarfið og sagði ekkert benda til þess að glæpsamlegt athæfi hefði átt sér stað. Óvíst er þó hvort það verði til að róa demókrata sem vantreysta mjög stjórnvöldum í Flórída, þar sem Jeb Bush, bróðir George W. Bush Bandaríkjaforseta, ræður ríkjum. Týndu kjörseðlarnir áttu að fara til kjósenda í Broward sýslu þar sem Al Gore, forsetaefni demókrata fyrir fjórum árum, fékk sína bestu kosningu í Flórída. Þá fékk hann 67 prósent atkvæða í sýslunni en tapaði ríkinu með 537 atkvæða mun eftir 36 daga baráttu fyrir dómstólum um hvaða atkvæðaseðla ætti að telja og hverja ekki. Um er að ræða hluta af 58 þúsund kjörseðlum sem átti að senda út 7. og 8. október. Ekki er vitað hversu margir kjörseðlanna týndust en vitað er að sumir sem áttu að fá kjörseðlana eru búnir að fá þá, fylla út og skila inn. Brenda Snipes, sem stjórnar kosningunum, sagði AP-fréttastofunni að hún ætti ekki von á að þurfa að senda út meira en 20 þúsund kjörseðla í stað þeirra sem ekki bárust. Þeir sem báðu um kjörseðla til að geta kosið utan kjörfundar geta beðið um nýja seðla í stað þeirra sem týndust. Einhverjir þeirra eru þó búnir að gefa upp von um að fá kjörseðlana senda. Herman Post, 82 ára maður sem býr til skiptis í Flórída og Connecticut í norðausturhluta Bandaríkjanna, sagðist í viðtali við The New York Times ætla að keyra alla leið til Flórída til að kjósa á þriðjudag. Til að það takist ætlar hann að leggja af stað snemma á sunnudagsmorgun. Að sögn AP-fréttastofunnar hringdu hundruð kjósenda í sýslunni sem óskuðu eftir atkvæðaseðlum svo þeir gætu greitt atkvæði utan kjörfundar í kjörstjórn og kvörtuðu, að sögn var álagið svo mikið á tímabili að kjósendur náðu ekki í gegn.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×