Erlent

Engin leið að spá um úrslitin

MYND/AP
Úrslitin í forsetakosningunum í Bandaríkjunum ráðast að líkindum í nokkrum lykilríkjum og þar er tvísýnan ennþá meiri en annars staðar. Í tveimur þeirra ríkja sem að líkindum munu ráða miklu um hver verður næsti forseti Bandaríkjanna er engin leið að sjá hvorum vegnar betur, en sé hægt að draga einhvern lærdóm af sögunni er það Bush sem ætti að hafa af þessu meiri áhyggjur. Á Flórída og í Ohio er enginn munur á fylgi frambjóðendanna. Enginn repúblíkani hefur verið kjörinn forseti Bandaríkjanna án þess að bera sigur úr bítum í Ohio og tap á Flórída myndi að líkindum einnig kosta Bush embættið. Kerry er með forskot í tveimur öðrum lykilríkjum: í Wisconsin nýtur hann meira fylgis og í Iowa hefur hann sótt svo mjög á að enginn munur er lengur á fylgi þeirra Bush. Í dag eru fimm dagar til kosninga og engin leið að spá af viti fyrir um úrslitin. Samkvæmt spá Washington Post í dag er Bush með 208 kjörmenn, Kerry með 179 og 151 kemur frá ríkjum þar sem enginn veit hvað gerist.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×