Erlent

Hefur hvarf sprengiefnanna áhrif

Hvarf hátt í fjögur hundruð tonna af mjög öflugu sprengiefni úr vopnageymslu í Írak, sem meðal annars má nota til að koma af stað kjarnasprengju, er að verða hitamál í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum. John Kerry sakar Bush forseta um að stefna hernámsliðinu í hættu með því að hafa ekki látið hafa gætur á geymslunni. Vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða kjarnorkumálastofnunin, sem höfðu haft eftirlit með geymslunum fyrir innrásina, höfðu brýnt fyrir Bandaríkjamönnum að hafa nánar gætur á þeim. Bush hefur hingað til færst undan því að svara beint fyrir málið, sem þykir hið erfiðasta fyrir hann á viðkvæmu stigi kosningabaráttunnar. Greint var frá því í morgun að daginn eftir að Bagdad féll fyrir innrásarliðinu, hafi fréttalið NBC komið í geymslurnar með bandarískum hermönnum og hafi sprengiefnið þá þegar verið horfið, en kosningastjóri Kerrys virðir þá skýringu að vettugi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×