Erlent

Blair var varaður við

Tony Blair var varaður við því fyrir stríðið í Írak, að hersveitir yrðu að vera þar árum saman til að tryggja einhverskonar stöðugleika. Sérfræðingar breskra stjórnvalda töldu engar líkur á gereyðingarvopnum í Írak, og að ástæða stríðsáhuga Bandaríkjamanna væri vilji Bush forseta til að ljúka verki föður síns. Ári fyrir upphaf stríðsins í Írak vöruðu sérfræðingar breska utanríkisráðuneytisins Tony Blair við því, að hætta væri á því að annar einræðisherra tæki við völdum í Írak eftir að Saddam yrði komið frá, og að sá einræðisherra gæti haldið áfram þar sem Saddam hætti með þróun gereyðingarvopna. Þetta kemur fram í skýrslu sem Daily Telegraph kom höndum yfir. Skýrsluhöfundar sögðu engan vita hvað tæki við að lokinni innrás, en ljóst væri að stórt hersetulið þyrfti í landinu um árabil til að tryggja einhverskonar stöðugleika. Fram kemur að bresku embættismennirnir í utanríkisráðuneytinu telja ástæðu stríðsáhuga Bush Bandaríkjaforseta einkum vera óuppgerðar sakir Bush eldri við Saddam og vilji Bush yngri til að ljúka verði föður síns. Tony Blair var þó ekki á því að hann hefði fengið neina slíka skýrslu í hendurnar í dag. Hann sagðist hafa lesið fréttir blaða í dag, en þær væru ekki réttar. Hann segir að skýrslur til sín hafi einmitt sagt að ekki væri rétt að skipta einum einræðisherra út fyrir annan slíkann. Hann sé sammála því og þess vegna hafi verið farið þá leið að reyna að ná fram lýðræði í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×