Innlent

Mannekla veldur töfum

Embætti ríkislögreglustjóra hefur ekki tekið formlega ákvörðun um hvaða stefna verði tekin í rannsókn á máli Eignarhaldsfélagsins DB ehf., sem átti helmings hlut í Frjálsri fjölmiðlun. Fyrir rúmum tveimur og hálfu ári lögðu á milli þrjátíu og fjörutíu hluthafar í DB ehf. fram kæru á hendur Sveini R. Eyjólfssyni, öðrum forsvarsmanni Frjálsrar fjölmiðlunar, fyrir meint umboðssvik, fjárdrátt og brot á lögum um einkahlutafélög og bókhald. Sveinn var stærsti hluthafinn í DB ehf. og framkvæmdastjóri. Þeir sem lögðu fram kæruna segjast enn ekki hafa verið kallaðir til skýrslutöku hjá ríkislögreglustjóra. Lögmaður hjá ríkislögreglustjóra hefur viðurkennt fyrir þeim að málið hafi tekið of langan tíma og sagt að það megi rekja til manneklu í efnahagsbrotadeildinni. Tugur kærumála hefur borist Ríkislögreglustjóra vegna gjaldþrots Frjálsrar fjölmiðlunar og annarra félaga sem tengdust forsvarsmönnum þess, ýmist vegna ætlaðra brota á almennum hegningarlögum eða skattalögum. Þau eru öll enn til meðferðar hjá embættinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×