Erlent

Lægri gjöld í Noregi

Norskir bankar taka ekkert lántökugjald vegna húsnæðislána eins og íslenskir bankar gera, og ekki heldur uppgreiðslugjald af lánunum en það gera íslensku bankanir. Norksu húsnæðislánin eru heldur ekki verðtryggð, þannig að norskir íbúðakaupendur þurfa ekki að greiða einskonar vaxtavexti eins og hér á landi auk þess sem vextir af norskum íbúðalánum eru talsvert lægri en hér á landi. Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri sambands banka og sparisjóða sagði í viðtali í Kastljosi nýverið, þegar hann gagnrýndi hið opinbera fyrir eins og hálfs prósents þinglýsingargjald að eins prósents lántökugjald bankanna væri hinsvegar eðlilegur umsýslukostnaður. Greinilegt er að norskir bankamenn eru ekki á sama máli því ef norskir íbúðakaupendur taka til dæmis tíu milljóna króna lán, þá fá þeir tíu milljónir óskertar. Hinsvegar er greitt þinglýsingargjald í Noregi eins og hér. Norsku bankarnir taka heldur ekki tveggja prósenta uppgreiðslugjald, ef lán er greitt upp á miðjum lánstímanum, eins og íslensku bankarnir ætla að gera, þrátt fyrir hörð mótmæli ASÍ, sem telur það jafnvel ólöglegt. Vaxtastríðið í húsnæðislánageiranum í Noregi, heldur áfram, en vextir af húsnæðislánum í Noregi eru jafnvel komnir rétt niður fyrir þrjú prósent í vissum tilvikum. Vextirnir hækka hinsvegar eftir því sem lánshlutfallið hækkar og hjá DNB bankanum norska fara þeir upp í rúm 4 prósent ef bankinn lánar fyrir öllu kaupverðinu. Það er samt lægra en KB banki býður hér, með lántökugjaldi , vaxtavöxtum og uppgreiðslugjaldi. Frekari lækkana er enn að vænta í Noregi því norskir efnahagssérfærðingar spáðu því í morgun að vextir af íbúðalánum kunni að fara alveg niður í eitt og hálft prósent í vissum tilvikum, á næstu vikum og mánuðum. Eftir stendur að þrátt fyrir vaxtalækkun íslenskra banka, sparisjóða , lífeyrissjóða og íbúðalánasjóðs, eru húsnæðislán á Íslandi mun dýrari en í Noregi og við það bætist svo óvissuþátturinn vegna verðtryggingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×