Innlent

Sáu til sólar á Akureyri

"Mér fannst ekki annað en þau sýndu Akureyri og samfélaginu hér mikinn áhuga og voru ánægð með það sem þau sáu," segir Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri Akureyrar. Hann tók á móti Karli Gústaf Svíakonungi, Silvíu drottningu og Viktoríu krónprinsessu, er þau komu þangað í gærmorgun. Fengu þau blíðskaparveður fyrir norðan eftir að hafa upplifað rok og rigningu á suðvesturhorninu síðan heimsókn þeirra hófst á þriðjudaginn. Kristján segist stoltur af þeim áhuga sem kóngafólkið sýndi en þeim var færð gjöf frá Akureyrarbæ í hádegisveislu sem haldin var þeim til heiðurs. "Mér finnst mjög merkilegt að bæði konungur og utanríkisráðherra Svíþjóðar skuli vilja kynna sér starfsemi hér í þessum 16 þúsund manna bæ á Íslandi. Þau kynntu sér uppbyggingu háskólans hér og þá stöðu sem háskólasamfélagið og stofnun Vilhjálms Stefánssonar hafa í Norðurskautssamstarfinu." Frá Akureyri héldu hjónin að Mývatni þar sem gengið var um Dimmuborgir og síðan var haldið í hið norðlenska bláa lón í Bjarnarflagi. Opinberri heimsókn þeirra lauk í gærkvöldi en þau verða áfram hér á landi í nokkra daga í einkaerindum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×