Erlent

Ofsaveður víða um heim

Ofsafengið veður hefur verið í mörgum heimshlutum undanfarna sólarhringa. Bandaríkin, Kína og Japan hafa öll fengið að kenna á öfgum veðurguðanna. Íbúar á Flórída reyna nú að hreinsa til eftir að fellibylurinn Frances gekk í annað sinn yfir skagann. Enn er þó rafmagnslaust víða, rusl og brak á götum úti valda umferðartöfum og símasamband liggur að stórum hluta niðri. Fjöldi heimila er mannlaus og því hefur þjóðvarðliðið verið kallað út til að gæta þess að glæpamenn fari ekki ránshendi um yfirgefin hverfi. Ugglaust léttir mörgum Flórída-búanum við þau tíðindi að fellibylurinn Ívan, sem stefndi þangað, hefur lagt lykkju á leið sína og mun að líkindum halda beint út á Mexíkó-flóa en ekki skella á Flórída um næstu helgi. En það er víðar vont veður. Í Japan olli fellibylurinn Songda töluverðum skemmdum og urðu þúsundir að flýja heimili sín. Sjötíu og fimm slösuðust og tuttugu og tveggja manna áhafnar indónesísks fraktskips er saknað. Og úrhellisrignir veldur flóðum í suðvesturhluta Kína. Hundrað eru sagðir hafa týnt lífi í flóðunum og tuga er saknað. Yfirvöld segja hættuástand við stærstu stíflu heims, þriggja gljúfra stífluna í Jangtse-ánni, og að lónið fyrir ofan stífluna sé við það að fyllast. Myndin var tekin í Flórída í gær þegar elliheimili þar var rýmt vegna óveðursins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×