Innlent

Vilja mislæg gatnamót

Nýr vegur um Svínahraun verður boðinn út með þeim valkosti að gatnamót Þrengslavegar og Suðurlandsvegar verði mislæg. Bæjarstjórn Ölfuss, sem þrýstir á mislæg gatnamót, hefur frestað ákvörðun um framkvæmdaleyfi. Vinna við gerð nýs vegar um Svínahraun átti reyndar að vera hafin fyrir löngu enda var stefnt að því vegurinn yrði tilbúinn nú í haust. Vegagerðin hugðist bjóða verkið út snemma í vor og lá þá fyrir sú niðurstaða að gatnamótin til Þorlákshafnar yrðu ekki mislæg heldur hefðbundin. Ölfusingar hafa hins vegar ákaft þrýst á að þarna verði mislæg gatnamót og samþykkti borgarafundur í Þorlákshöfn fyrr á þessu ári áskorun þess efnis sem send var þingmönnum og Vegagerð. Sá þrýsingur hefur nú borið þann árangur að búið er að ákveða að verkið verði boðið út með tveimur valkostum, með og án mislægra gatnamóta. Að sögn Jóns Rögnvaldssonar vegamálastjóra var það vilji alþingismanna að hafa þennan háttinn á við útboðið en ákvörðun um hvor kostur verður valinn verður síðan tekin þegar séð er hvernig tilboðin líta út. Nú er stefnt að því að bjóða verkið út í septembermánuði. Svínahraun tilheyrir sveitarfélaginu Ölfus og þarf Vegagerðin framkvæmdaleyfi þaðan til að geta hafist handa. Ósk Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi var hins vegar frestað í bæjarstjórn í síðustu viku þar sem menn vilja fyrst sjá hvernig framkvæmdin muni líta út, að sögn Ólafs Ragnarssonar bæjarstjóra. Hvort þetta þýði að sveitarfélagið Ölfus muni ekki veita framkvæmdaleyfi nema þarna verði mislæg gatnamót segist bæjarstjórinn ekki trúa öðru en að mislæg gatnamót verði valin. Það sé algjört grundvallaratriði vegna umferðaröryggis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×