Innlent

Vill gera víkingamynd á Íslandi

Kanadískur kvikmyndagerðarmaður af íslenskum ættum ætlar að gera kvikmynd byggða á hugmyndum Íslendinga um víkinga. Hann er staddur hér á landi til að safna hugmyndum. Íslenska sjónvarps- og kvikmyndaakademían varar fólk við samstarfi við manninn. Leif Bristow er kanadískur kvikmyndagerðarmaður af íslenskum ættum. Langafi hans og amma voru á meðal fyrstu Íslendinganna sem fóru vestur um haf og settust að í Gimli. Bristow elur með sér draum um að búa til stórmynd byggða sögum um íslensku víkingana, og segir jarðveginn fyrir slíkar myndir frjóar í kjölfar mynda um Hringadróttinssögu, Tróju og Gladíator. Leif Bristow, segir að sér hafi fundist tími til kominn að gera víkingamynd, það sé langt síðan góð víkingamynd hafi verið gerð, ekki síðan Tony Curtis og Kurt Douglas léku í slíkri fyrir 40 árum. Hann hefur sett af stað smásagnakeppni fyrir Íslendinga. Sögurnar eiga að vera 1000 til 8000 orð og vera innblásnar af hugmyndum um víkingatímann. Þær bestu verða síðan hugsanlega með einum eða öðrum hætti nýttar við handritsgerðina, og það eru peningaverðlaun í boði. Fyrstu verðlaun eru 1000 dalir. Þess má hins vegar geta að á heimasíðu íslensku sjónvarps og kvikmyndaakademíunnar er fólk varað við samstarfi við fyrirtækið og því bent á að leita álits lögfræðings á sviði höfundarréttar áður en sagan er send inn. Leif reiknar með að tökur hefjist næsta sumar og hann stefnir að því að taka myndina upp hér á landi.Leif segir að þetta verði samstarfsverkefni Kanada, Bretlands og Íslands. Leif hefur fengið heimsþekkta leikara á borð við Whoopi Goldberg og Christopher Plummer til samstarfs við sig í fyrri myndum sínum og reiknar með að einhverjir frægir leikarar prýði víkingamyndina. Hann segir það nauðsynlegt, myndin muni kosta um 25-30 milljónir dala og fjalli á sögulegan hátt um víkingana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×