Innlent

Sælkerakvöld til styrktar fötluðum

Landslið matreiðslumeistara býður fólki á sælkerakvöld á Broadway næstkomandi föstudagskvöld til fjáröflunar fyrir Íþróttasamband fatlaðra og þátttöku á ólympíumóti fatlaðra í Aþenu. Á bak við fjáröflunina stendur matreiðslumeistari, sem sjálfur varð fyrir því að upplifa erfið veikindi og er nú staðráðinn í að láta gott af sér leiða. Boðið verður upp á glæsilega þriggja rétta máltíð og skemmtidagskrá um leið og fólk styrkir gott málefni. Verð aðgöngumiða er 5000 krónur, sem renna óskiptar til Íþróttasambands fatlaðra, enda gefa allir sem að kvöldinu koma vinnu sína. Að dagskrá lokinni verður dansleikur með hljómsveitinni Mánum og uppboð, þar sem meðal annars verða boðnar upp íþróttatreyjur landsliðsmanna í fótbolta. Að baki átakinu stendur Þórarinn Guðlaugsson matreiðslumeistari sem barist hefur við parkinson veiki undanfarin ár. Hann hefur nú náð sér á strik, harðákveðinn í að láta gott af sér leiða. Miðar á sælkerakvöldið eru til sölu á Broadway og þeir sem vilja leggja til muni á uppboðið er bent á Íþróttasamtök fatlaðra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×