Erlent

Sprengiefni með handfarangri

Ekki er leitað sérstaklega að sprengiefni í handfarangri flugfarþega í Bandaríkjunum. Bandaríska dagblaðið USA Today greindi frá þessu í gær í kjölfar þess að sprengiefni hefði fundist í handfarangri tveggja kvenna sem talið er að hafi grandað tveimur rússneskum farþegaflugvélum í síðustu viku. Douglas Laird, sérfræðingur í öryggismálum fyrir bandaríska flugfélagið Northwestern, segir að það sé gat í öryggiskerfi flestra bandarískra flugvalla. Leitað sé að sprengiefni í venjulegum farangri en handfarangur sé bara gegnumlýstur og það sé ekki nóg. Ekki sé víst að sprengiefni sjáist í gegnumlýsingum. Þá segir hann að farþegar geti mögulega komist í gegnum öryggiskerfi flugvallanna með sprengiefni inni á sér því málmleitarhlið sem farþegar þurfi að fara í gegnum greini ekki sprengiefni. Laird segir brýnt að stjórnvöld bæti úr þessu sem fyrst. "Við megum ekki vera of örugg um að hér séu öryggismál í góðum lagi eftir endurskoðun þeirra mála í kjölfar 11. september," segir Laird. Sérstakur búnaður sem greinir lykt af sprengiefni hefur verið tekin í gagnið á fimm flugvöllum í Bandaríkjunum. Flugvellirnir eru hins vegar ekki þeir stærstu því búnaðurinn er í Tampa, San Diego, Providence, Rochester og Biloxi. Stjórnvöld segja að enn sé verið að kanna hvort búnaðurinn virki sem skyldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×