Erlent

Sprengdi sig á kjörstað

Gríðarleg öryggisgæsla er vegna forsetakosninganna sem haldnar eru í Tsjetsjeníu í dag. Ein sprengja hefur þegar sprungið í höfuðborg landsins. Karlmaður sprengdi sig í loft upp í morgun fyrir utan kjörstað í Grozní en varð, öðrum en sjálfum sér, ekki að tjóni. Öryggisverðir höfðu tekið eftir því að maðurinn hélt á plastpoka þegar hann kom til að kjósa og vildu fá að ræða við hann. Við það hræddist maðurinn og hljóp í burtu en um leið sprakk pokinn sem hann hélt á. Nú er talið öruggt að rússnesku farþegavélarnar tvær sem fórust í rússneskri lofthelgi fyrir nokkrum dögum hafi verið grandað af tjsetsjenskum hryðjuverkahópi sem vildi hræða fólk fyrir kosningarnar í dag. Áttatíu og níu manns létu lífið í þessum sprengjutilræðum og sjötíu aðrir í sprengjuárás í höfuðborginni um síðustu helgi. Uppreisnarmenn í Tsjetsjeníu segja að forsetakosningarnar séu skrípaleikur og að Kremlverjar séu búnir að ákveða niðurstöðuna. Enda er talið næsta víst að frambjóðandinn sem nýtur stuðnings rússneskra stjórnvalda hljóti kosningu. Sex aðrir eru í framboði. Fyrrverandi forseti Tsjetsjeníu lét lífið í sprengjutilræði fyrr í sumar. Myndin er tekin fyrir utan kjörstað í Tsjetsjeníu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×