Erlent

Sharon gagnrýndur úr eigin röðum

Dómsmálaráðherra Ísraels hvatti Ísraelsstjórn í gær til að laga áætlanir sínar um landnemabyggðir að alþjóðlegum ályktunum. Þetta þykir til marks um að Ísraelsstjórn sé berskjaldaðri en áður fyrir gagnrýni utan frá, sérstaklega eftir að alþjóðadómstóll úrskurðaði að aðskilnaðarmúrinn sem verið er að reisa sé ólöglegur. Múrinn og brotthvarf landnema frá Gaza-ströndinni eru hornsteinninn í framtíðaráætlunum Ariels Sharon, forsætisráðherra Ísraels. Sharon stefnir á að ljúka brotthvarfi á næsta ári en það hefur vakið efasemdir meðal harðlínumanna í flokki Sharons, sem telja að Sharon geti ekki haldið málinu til streitu án þess að ríkisstjórnin springi. Varnarmálaráðherra Ísraels segir að búast megi við mótspyrnu frá landnemum á Gaza-ströndinni þegar þeir þurfa að yfirgefa heimili sín, en um 8.000 gyðingar búa á Gaza-ströndinni meðal 1,3 milljóna Palestínumanna. Fulltrúar landnemanna hafa gagnrýnt áætlunina harkalega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×