Erlent

Hörmungarnar í Darfúr gætu aukist

Farsóttir gætu aukið enn hörmungar flóttamanna frá Darfur-héraði í Súdan. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um bætt ástand eru skæruliðasveitir stjórnvalda enn sagðar á kreiki í Darfur. Fulltrúar stjórnvalda í Khartoum áttu í dag fundi með fulltrúum uppreisnarmanna í Darfur-héraði í Súdan. Á meðan þeir funduðu var áfram mannfall því þó að bardögum eða þjóðernishreinsuninni eigi að vera lokið búa enn tugir eða hundruð þúsunda við slæman aðbúnað í flóttamannabúðum. Þar er óttast að farsóttir breiðist út. Sacha Westerbeek, taslmaður UNICEF, segir þúsundir manna nota eitt salerni í einum búðanna og það geri ástandið enn verra hvað sjúkdóma varðar. Þess vegna óttist menn kóleru, lifrarbólgu og blóðkreppusótt - sjúkdóma sem koma mætti í veg fyrir með nægu vatni og hreinlætisaðstöðu fyrir flóttafólkið Fulltrúar alþjóðlegra samtaka vilja að súdönsk stjórnvöld verði beitt þvingunum þar sem þau eru sögð hafa svikið loforð um að stöðva Janjaweed-sveitir araba sem leikið hafa svarta íbúa í Darfur grátt. Abdu Abdallah Ismael hjá Frelsisher Súdans segir ríkisstjórninni ekki vera alvara því þegar vopnahléssamningar hafi verið undirritaðir í Tsjad þann 8. apríl hafi verið rætt um afvopnun Janjaweed-sveitanna. Ismael segir stjórnina hafa sagt að það væri á hennar ábyrgð að afvopna þær en núna kveðst hún ekki vita hverjar þessar sveitir séu.  Milljón íbúar í Darfur hafa flúið heimili sín síðastliðið eitt og hálft ár og tugir þúsunda hafa fallið eða verið drepnir. Nokkur þúsund friðargæsluliðar frá Afríkuríkjum hafa verið sendir þangað en enn sem komið er virðist vera þeirra engu skipta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×