Erlent

Málverkin einhvers staðar í Ósló

Norska lögreglan telur að málverkunum sem stolið var úr Munch-safninu í Ósló í gær hafi verið komið fyrir einhvers staðar í borginni. Tveir vopnaðir menn höfðu útgáfur af frægustu verkum Munchs á brott með sér í gærmorgun, Ópinu og Madonnu. Tugir gesta voru í safninu á þessum tíma og hafa þeir gefið þann vitnisburð að mennirnir hafi borið sig klaufalega. Lögreglan leitar nú að vísbendingum um hvað ræningjarnir ætli sér með verkin; hvort þeir séu bara að skemmta sér, hafi þegar fundið kaupanda eða ætli að krefjast lausnargjalds en verkin eru metin á marga milljarða íslenskra króna. Stjórn safnsins hefur verið harðlega gagnrýnd í norskum fjölmiðlum sem segja minna mál að ræna þjóðargersemunum en sígarettupakka úr sjoppu. Það þykir enda stórfrétt á heimsvísu að hægt hafi verið að stela einu af þekktustu listaverkum heims á listasafni, fullu af gestum um hábjartan dag, án þess að heyrst svo mikið sem í einni lítilli viðvörunarbjöllu. Ekki er nema áratugur frá því að Ópinu var síðast stolið, þó það hafi verið önnur útgáfa verksins, en það var sama dag og Vetrarólympíuleikarnir í Lillehammer voru settir. Þá segir sagan að þjófarnir hafi skilið eftir sig miða sem á stóð: „Takk fyrir lélega öryggisgæslu.“ Myndin sýnir ramma málverkanna þar sem þeir fundust í Ósló í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×