Erlent

Grunur um raðmorð

Breska lögreglan telur ýmislegt benda til þess að Amelie Delagrange, sem var myrt í London á fimmtudaginn, hafi verið fórnarlamb raðmorðingja. Enn fremur segir lögreglan margt benda til þess að morðinginn sé staðkunnugur í Twickenham-hverfi, þar sem morðið átti sér stað. Hann gæti jafnvel verið búsettur þar. Verið er að kanna hugsanleg tengsl við þrjár aðrar líkamsárásir í hverfinu á síðustu misserum, þar á meðal morð á 19 ára stúlku í fyrra. Delagrange, sem var 22 ára, varð fyrir heiftarlegri árás á fimmtudagskvöld eftir að hún fór úr strætó á rangri biðstöð og ákvað að ganga heim. Hún fannst seint á fimmtudagskvöld með alvarleg meiðsl á höfði og lést skömmu síðar á sjúkrahúsi. Lögreglan er enn að leita að farsíma hennar og handtösku. Delagrange er frönsk, en kom til London fyrir tveimur mánuðum til þess að ná betri tökum á enskri tungu. Foreldrar hennar komu til London í gær til þess að leggja blómsveig á staðinn þar sem hún fannst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×