Erlent

Fyrstu réttarhöldin í Guantanamo

Fjórir af föngum Bandaríkjahers í Guantanamo á Kúbu koma fyrir herdómstól í vikunni. Þetta verða fyrstu réttarhöldin yfir föngum í Guantanamo. Nærri 600 fangar eru í haldi Bandaríkjahers á Kúbu. Þeir hafa flestir setið í fangabúðum þar í meira en tvö ár. Lögfræðingar, mannréttindasamtök og stjórnvöld margra ríkja hafa harðlega gagnrýnt Bandaríkjastjórn fyrir málsmeðferðina, sem á sér engin fordæmi. Einn fjórmenninganna, sem koma fyrir dóm í vikunni, var bílstjóri Osama bin Laden. Annar er sakaður um að hafa verið með áróður fyrir hryðjuverkum. Sá þriðji er talinn hafa verið bókhaldari al-Kaída og sá fjórði barðist með talibanasveitum í Afganistan. Verjandi eins þeirra hefur ekki séð skjólstæðing sinn í fjóra mánuði vegna stjórnsýslutafa við að veita túlki heimild til að vera með verjandanum. Verjandi annars þeirra hefur óskað eftir því að hætta að verja skjólstæðing sinn, sem þýðir að hann situr eftir án verjanda. Aðrir verjendur segja að strangar reglur, sem meðal annars veita hernum heimild til þess að fylgjast með viðræðum sakborninga við verjendur sína, geri þeim nánast ókleift að fá sýknudóm. Stór hluti fanganna á Kúbu kom þangað í janúar árið 2002. Bandaríkjastjórn var snögg að lýsa yfir sekt þeirra fyrirfram: "Þetta eru drápsmenn," sagði George W. Bush Bandaríkjaforseti. John Ashcroft, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði þá "einstaklega hættulega". Allir eiga sakborningarnir fjórir yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Margir aðrir fangar sem sitja í fangabúðunum eiga þó yfir höfði sér líflátsdóm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×