Erlent

Ali enn í haldi liðsmanna Sadr

Liðsmenn uppreisnarklerksins Múktada al-Sadr hafa Ali-moskuna, í borginni Najaf í Írak, enn á sínu valdi. Viðræður um að afhenda hana æðsta trúarleiðtoga sjíta, al-Sistani, hafa staðið yfir í dag en til átaka kom í nágrenni við moskuna. Viðræðurnar í dag hafa meðal annars snúist um það hvernig standa eigi að því að afhenda peninga, gull og önnur verðmæti úr moskunni, sem talin er einn helsti helgistaður sjíta, enda er frændi og mágur sjálfs spámannsins Múhameðs sagður hvíla þar. Fylgismenn al-Sadrs hafa hafst fyrir í moskunni svo dögum skiptir, og haft að engu fyrirskipanir íröksku stjórnarinnar um að leggja niður vopn. Enn kom til átaka í dag í nágrenni hennar, þrátt fyrir samningaumleitanir al-Sadrs og fulltrúa æðsta trúarleiðtoga sjíta, al-Sistani, um að hann fái þar lyklavöld. Talsmaður Bandaríkjahers segir að að þeim hafi verið ráðist, og þeirri árás hafi verið svarað með árásum úr lofti og af jörðu niðri. Þrátt fyrir að samkomulag um að al-Sadr muni afsala sér yfirráðum yfir moskunni til æðsta klerksins, eru menn hans staðráðnir í að gæta hennar áfram og þar stendur hnífurinn í kúnni. Talsmaður al-Sadrs segir að þegar hafi verið reynt að afhenda fulltrúum al-Sistani lyklana, en þeir hefðu neitað og krafist þess að vopnaðir fylgismenn al-Sadrs létu sig hverfa. Stjórnvöld hafa hikað við að ráðast til inngöngu í moskuna, með liðsinni Bandaríkjahers, af ótta við að espa upp almenning í landinu og grafa undan trausti manna á bráðabirgðastjórn landsins, sem er afar umdeild.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×