Erlent

Átök við Ali moskuna í morgun

Til átaka kom við Ali moskuna í Najaf í Írak í morgun, á milli Bandaríkjahers og Medi-hers sjítaklerksins Moqtadas al-Sadrs. Al-Sadr hefur gefið frá sér yfirráð yfir Imam Ali grafhýsinu, en Ali moskan er þó enn á valdi manna hans. Fylgismenn Al-Sadrs hafa hafst fyrir í moskunni svo dögum skiptir, og haft að engu fyrirskipanir íröksku stjórnarinnar um að leggja niður vopn. 77 lágu í valnum í gær eftir loftárásir bandaríkjahers. Enn kom til átaka í morgun eftir að liðsmenn al-Sadrs sögðust mundu yfirgefa moskuna um leið og trúarleiðtogi sjíta í Írak, al-Sistani fengi yfirráðin. Fjórar sprengjur munu hafa sprungið, á sama tíma og flugvélar bandaríkjahers sveimuðu yfir borginni Najaf. Al-Sadr hefur sagst treysta al-Sistani fyrir moskunni og þeim mikla helgidómi sem þar er, en í grafhýsinu er frændi spámannsins Múhameðs sagður hvíla. Misvísandi fregnir hafa borist af því hvort lyklar að byggingunni og þar með töldum peningaskápum hennar væru komnar í hendur al-Sistanis, eða hvort samningaviðræður væru enn í gangi. Ljóst er þó að fregnir þess efnis að írakska lögreglan hefði náð yfirráðunum yfir byggingunni í gær, eru alrangar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×