Erlent

Ringulreið í Najaf

Harðlínuklerkurinn al-Sadr virðist hafa sloppið undan hersveitum Bandaríkjanna og Íraks síðdegis. Algjör ringulreið ríkir í Najaf og enginn virðist vita nákvæmlega hvað er þar á seyði. Það er vægast sagt ótrúlegt að þúsundir hermanna hafi setið um Imam Ali moskuna svo dögum skiptir en að sá sem leitað var hafi sloppið undan þeim, þrátt fyrir skothríð og sprengjuregn. En svo virðist sem sú hafi verið raunin síðdegis. Þá gerðu hersveitir írakskra stjórnvalda og Bandaríkjamanna áhlaup á moskuna. Írakskir lögreglumenn fóru í kjölfarið inn í moskuna ásamt trúarleiðtogum og eru sagðir hafa handsamað þar hundruð stuðningsmanna al-Sadrs, sem voru margir búnir léttum skotvopnum. Múktada al-Sadr var hins vegar hvergi að finna, og svo virðist sem hann hafi laumast undan í skjóli nætur, þrátt fyrir harða bardaga sem kostuðu um áttatíu lífið undanfarinn sólarhring. Ringulreið ríkir í Najaf og er óljóst hvort að þar er enn barist og hvort að moskan sé á valdi hersveitanna eður ei. Innanríkisráðherra Íraks sagði svo vera, en talsmenn Sadrs segja Mehdi-hersveitirnar ennþá halda moskunni og veita öfluga mótspyrnu. Blaðamenn á staðnum draga í efa að hundruð stuðningsmanna al-Sadrs hafi verið handteknir, og írakskir lögreglumenn segja CNN-fréttastöðinni að það sé alrangt að þeir hafi náð Imam Ali-moskunni á sitt vald. Heimildarmaður CNN í nánd við moskuna sagði raunar að þar væri allt með kyrrum kjörum síðdegis. Það er því algjörlega óljóst nákvæmlega hvað gerðist í Imam Ali moskunni í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×