Erlent

77 létust á sólarhring

77 manns hið minnsta hafa farist í hörðum árásum á skotmörk í Najaf í Írak undanfarinn sólarhring. Harðlínuklerkurinn Múktada al-Sadr er þar í skotlínu írakskra og bandarískra sveita. Þó að árásirnar á Najaf í nótt hafi verið mjög harðar, virðast þær aðeins hafa verið sýnishorn, ætlað til að hrista upp í harðlínuklerknum Múktada al-Sadr og skelfa fylgismenn hans. Orrustuþotur vörpuðu sprengjum og látlaus skothríð dundi á þeim hluta borgarinnar, þar sem Mehdi-hersveitir al-Sadrs halda til. Íbúar flýðu unnvörpum eða földu sig í kjöllurum. Þrýstingurinn hefur borið nokkurn árangur. Fulltrúar al-Sadrs vilja nú að erindrekar æðsta klerks Íraks, Æjatolla Ali al-Sistani, taki við stjórn Imam Ali moskunnar í Najaf, þar sem al-Sadr hefur haldið til. Það þýddi að allir þeir, sem koma vildu inn í moskuna og garð hennar, yrðu að skilja vopn sín eftir fyrir utan. Hugsanlega mætti þannig koma því við að moskan, sem er mikilvæg í íslömskum sið, sleppi komi til lokabardagans sem stjórnvöld hafa hótað ef al-Sadr gefst ekki upp. Engin viðbrögð hafa enn sem komið er borist við umleitan manna al-Sadrs, sem neitar eftir sem áður að biðja Mehdi-skæruliðasveitir sínar að leggja niður vopn. Fréttaskýrendur segja þó ólíklegt að ríkisstjórn Íraks sé áfjáð að semja við al-Sadr í ljósi þess að hann gekkst inn á skilmála stjórnvalda fyrir tveimur dögum, og sveik þá sólarhring síðar. Gert er ráð fyrir að nú eftir föstudagsbæn, megi vænta tíðinda. Annars vegar geti lokahrinan í árásinni á al-Sadr hafist, og að sama skapi er óttast að til mótmæla komi víða um landi, og að það verði til að draga enn frekar úr vinsældum og mætti ríkisstjórnar Iyads Allawis, forsætisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×