Erlent

Fortíð föðurins reyndist dýrkeypt

Syndir feðranna geta enn reynst mönnum erfiðar. Það fékk Shin Ki-nam, leiðtogi Uri-flokksins sem er við völd í Suður-Kóreu, að reyna. Hann hefur nú neyðst til að segja af sér í kjölfar ásakana um að hafa reynt að breiða yfir störf föður síns fyrir japanska hernámsveldið. Japanar hernámu Kóreu árið 1910 og stjórnuðu þar með harðri hendi til loka síðari heimsstyrjaldar árið 1945. Roh Moo-hyun, forseti Suður-Kóreu, hefur nýlega hvatt til þess að rannsakað verði hvaða Kóreubúar unnu með japönskum hernámsyfirvöldum og að hvaða leyti. Þetta kemur sér illa fyrir flokksbróður hans Shin. Shin hélt því fram að faðir sinn hefði verið kennari í valdatíð Japana. Staðreyndin er hins vegar sú að hann vann sem herlögreglumaður fyrir Japana og hafa reyndar verið fluttar fréttir þar sem hann er ásakaður um að hafa pyntað Kóreubúa. Shin neyddist til að segja af sér og baðst afsökunar fyrir sína hönd og föður síns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×