Erlent

Uggandi vegna Bandaríkjahers

Sumir íranskir herforingjar telja réttast að verða fyrri til að láta til skarar skríða ef þeir telja hættu á að Bandaríkjamenn komi til með að gera árás á Íran. Þetta sagði Ali Shamkhani, varnarmálaráðherra Írans, í viðtali á Al-Jazeera sjónvarpsstöðinni.  Shamkhani lýsti ugg Írana yfir því að Bandaríkjaher sé hvort tveggja í Írak og Afganistan en bæði lönd eiga löng landamæri að Íran. "Við bíðum ekki eftir því sem aðrir kunna að gera okkur," sagði Shamkhani aðspurður um hvernig Íranar myndu bregðast við ef Bandaríkjamenn réðust á kjarnorkuver þeirra. "Það eru skiptar skoðanir meðal herforingja. Sumir telja að fyrirbyggjandi aðgerðir hafi ekki verið fundnar upp af Bandaríkjamönnum og séu ekki bara á þeirra færi. Hvaða þjóð sem telur sér ógnað gæti gripið til slíkra aðgerða," sagði hann. Bandaríkjamenn hafa varað mjög við því að Íranar séu að koma sér upp kjarnorkuvopnum en því neita Íranar. Íran er eitt þriggja landa sem George W. Bush Bandaríkjaforseti kallaði öxulveldi hins illa. Hin voru Norður-Kórea og Írak undir stjórn Saddams Hussein.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×