Erlent

Fólksfjölgun næstu áratugi

Fólksfjölgun er spáð um allan heim næstu áratugi nema í Evrópu. Ísland er þó undantekning hér á landi er gert ráð fyrir fjölgun um tuttugu og tvö prósent. Heimsmyndin mun breytast mikið á næstu árum miðað við nýja viðamikla skýrslu Population Reference Bureau, rannsóknarstofnunar í Washington sem á í samstarfið við Sameinuðu þjóðirnar. Íbúum ríkra landa mun fækka en í þróunarlöndum á sér stað sannkölluð sprenging. Í Afríku er til að mynda gert ráð fyrir fólksfjölgun um milljarð fram til ársins 2050, þrátt fyrir víðtæk áhrif almæmisfaraldurs, malaríu og berkla. Bandaríkjamönnum mun fjölga um hundrað og tuttugu milljónir. Evrópubúum mun hins vegar fækka um nærri sextíu milljónir og íbúafjöldi sumra landa álfunnar gæti minnkað um allt að þriðjung. Þetta er einkum áberandi í ríkjum Austur-Evrópu þar sem búist er við 38 prósenta fækkun í Búlgaríu, 17 prósenta fækkun í Rússlandi og 24 prósentu fækkun í Lettlandi. Fólksfjölgunin verður einna mest í ríkjum þar sem óstöðugleiki hefur verið áberandi undanfarin ár og þar sem hætt er við áframhaldandi óstöðugleika. Í Jemen verður 255 prósenta fjölgun, í Afganistan verður hún 187 prósent og í Kúveit 182 prósent, svo nokkur dæmi séu tekin. Stærstu ríki heims eru nú Kína, Indland, Bandaríkin, Indónesía og Brasilía og það breytist ekki mikið því árið 2050 er gert ráð fyrir að stærstu ríkin verði Indland, Kína, Bandaríkin, Indónesía og Nígería. Hér á landi er enn gert ráð fyrir fólksfjölgun og er stuðullinn hér á landi raunar sá hæsti í Evrópu, 0,8. Aðeins Írland og Andorra komast jafn hátt. Norðurlöndin eru með mun lægri stuðul. Árið 2025 er gert ráð fyrir að Íslendingar verði þrjú hundruð þúsund og árið 2050 fjögur hundruð þúsund. Það er fjölgun um 22 prósent miðað við árið 2003.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×