Erlent

Olíuverð aldrei hærra

Metverð fékkst fyrir olíufatið í gær, fjörutíu og sjö dollarar. Sérfræðingar sjá engin teikn um verðhjöðnun á næstunni og víða um heim er stefnt að neyðaraðgerðum til að draga úr eldsneytisnotkun. Olíufatið hefur aldrei verið jafn dýrt og það var eftir lokun markaða í gær, eða um fjörutíu og sjö dollarar á fatið. Ástæða hækkunarinnar í gær er sú að hátt eldsneytisverð hefur ekki enn haft mælanleg áhrif á efnahagslíf í Bandaríkjunum og því telja sérfræðingar að eldsneytisþörf þar muni ekki minnka með þeim afleiðingum að verð lækki. Það sem af er þessu ári hefur eldsneytisþörf Bandaríkjanna aukist um 3,5 prósent. Enn ein ástæða hækkana á þessu ári er stóraukin þörf í Kína en hún jókst um 21 prósent á fyrri helmingi þessa árs og olíuinnflutningur jókst um 40 prósent. Í dag virðist sem verð á olíu verði áfram í kringum fjörutíu og sjö dollara. Nú telja sérfræðingar tvær ástæður geta orðið til enn frekari hækkunar, eða í það minnsta til þess að verð lækki ekki: annars vegar minnkandi olíubirgðir í Bandaríkjunum og hins vegar ótti við skemmdarverk á olíuleiðslum Íraks. Stuðningsmenn harðlínuklerksins Muqtada al-Sadr hafa hótað að kveikja í olíulindum og varpa sprengjum á olíuleiðslur, yfirgefi sveitir ríkisstjórnar Íraks ekki Najaf innan tveggja sólarhringa. Sérfræðingar á olíumörkuðum telja einnig að OPEC-ríkin geti ekki framleitti meiri olíu eins og þau hafa lofað og því muni verðið haldast hátt enn um hríð. Víða annars staðar er áhrifa þessa háa verðs farið að gæta. Til að mynda hyggjast nokkur Asíuríki grípa til aðgerða til að draga úr eldsneytisnotkun og -eftirspurn. Meðal hugmynda er að þvinga fólk til að nota almenningssamgöngur og hvetja verslanir og kvikmyndahús til að loka snemma. Þótt aldrei hafi fleiri dollarar fengist fyrir olíufatið er þetta þó ekki metverð, sé litið til sögunnar og metverð í olíukreppum fortíðar framreiknað. Verðið eftir uppreisnina í Íran í kringum 1980 væri til að mynda framreiknað í kringum áttatíu dollara á fatið. Myndin er af verðbréfamiðlurum í New York



Fleiri fréttir

Sjá meira


×