Erlent

Ýtt við stjórnvöldum

Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að senda sendinefnd á Vesturbakkann til að rannsaka ólöglegar landnemabyggðir Ísraela á svæðinu. Bandarískir embættismenn hafa lýst óánægju með að Ísraelar skuli ekki vera teknir til við að rífa nokkrar smærri landnemabyggðir langt inni á svæðum Palestínumanna eins og þeir höfðu lofað. För sendinefndarinnar þykir til marks um að verið sé að reka á eftir Ísraelum. Ariel Sharon forsætisráðherra hét því fyrir rúmu ári að leggja þessar landnemabyggðir niður. Það loforð gaf hann í tengslum við friðarumleitanir fyrir botni Miðjarðarhafs. Þrátt fyrir að Sharon hafi heitið því að leggja útstöðvar landnemabyggðanna niður eru menn ekki sammála um hversu margar byggðir beri að rífa. Ísraelsku samtökin Friður nú segja að rífa þurfi 53 landnemabyggðir. Stjórnvöld segja að einungis þurfi að rífa um helming þeirra byggða. Ísraelska ríkisstjórnin bauð í gær út byggingu þúsund heimila fyrir landtökumenn á Vesturbakkanum. Bygging húsanna gengur þvert á það sem kveðið er á um í vegvísinum til friðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×