Erlent

Óttast um töluvert mannfall

Óttast er að tugir manna hafi farist þegar fellibylurinn Charley jafnaði hús við jörðu og reif tré upp með rótum á Flórída í gær. Þegar er búið að finna fimmtán lík og leitin svo til nýbyrjuð. Það má segja að Charley hafi komið aftan að Flórídabúum því hann tók land miklu sunnar en við var búist. Hundruð þúsunda manna höfðu flúið heimili sín við Tampa-flóa en íbúar í Punta Gorda og Port Charlotte voru alls óviðbúnir þegar hann kom þar á land. Stormurinn tætti  heilu húsin í sundur og jafnaði þau við jörðu. Talið er að mesta manntjónið hafi hins vegar orðið í nokkrum hjólhýsahverfum en sum hjólhýsin beinlínis hurfu og enn hefur ekki fundist af þeim tangur né tetur. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á þessu svæði og þjóðvarðaliðar sendir til þess að aðstoða íbúana. Efnahagslegt tjón er ekki undir sjötíu milljörðum króna og talið er að ein milljón manna sé án rafmagns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×