Erlent

Tjón Charley um 70 milljarðar

Fellibylurinn Charley jafnaði hús við jörðu og reif tré upp með rótum þegar hann gekk yfir Flórída í gær. Það má segja að Charley hafi komið aftan að Flórídabúum því hann tók land miklu sunnar en við var búist. Hundruð þúsunda manna höfðu flúið heimili sín við Tampa-flóa en íbúar í Punta Gorda og Port Charlotte voru alls óviðbúnir þegar hann ruddist þar á land með bauki og bramli. Vindhraðinn mældist 233 kílómetrar á klukkustund sem er 64,7 metrar á sekúndu. Sem sagt, alvöru óveður. Charley jafnaði enda býsnin öll af húsum við jörðu og reif tré upp með rótum. Ekki eru enn öll kurl komin til grafar um tjónið en það er ekki undir sjötíu milljörðum króna. Ekki er vitað um nema einn mann sem fórst en allmargir eru slasaðir. Það þykir þó vel sloppið miðað við hve óveðrið var hrikalegt og það að Charley kom á land á allt öðrum stað en við var búist. Charley er nú kominn yfir Flórída og á leið út á Atlantshaf og er eitthvað farið að draga úr styrk hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×