Innlent

Málskotsréttur forseta úr sögunni

Til þess að afnema málskotsrétt forseta Íslands þarf stjórnarskrárbreytingu. Stjórnarskrárbreyting verður ekki gerð nema á tveim þingum og er því ferli sem tekur langan tíma. Samkvæmt heimildum fjölmiðla verður,á Alþingi, í dag, lögð fram yfirlýsing eða þingsályktunartillaga um endurskoðun á 26. grein stjórnarskrárinnar, sem varðar synjunarvald forseta Íslands. Stefnt verður að því að festa í stjórnarskrána þá framkvæmdahefð sem verið hefur frá stofnun lýðveldisins, að forseti framkvæmi einungis vald ráðherra. Málskotsréttur forseta væri þar með úr sögunni. Sjálfsagt verður skipuð nefnd til þess að fjalla um málið, og reynt að ná um það sem víðtækastri samstöðu. En niðurfelling á málskotsréttinum kallar á breytingar á stjórnarskránni. Framkvæmdin á því er á þann veg að frumvarp um stjórnarskrárbreytinguna er lagt fram á Alþingi og um það fjallað eins og hvert annað frumvarp, með nefndastörfum, þrem umræðum og þar frameftir götunum. Ef frumvarpið er svo samþykkt, skal þegar rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. Á þessu nýja þingi skal svo leggja frumvarpið fram aftur, algerlega óbreytt. Ef það verður samþykkt aftur, verður það að lögum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×