Erlent

Bosnía grætur

Yfir tíu þúsund íbúar Bosníu komu saman í gær þegar lík 338 fórnarlamba ógnaratburðanna sem urðu í Srebrenica 1995 voru loks lögð til hinstu hvílu. Líkin fundust nýlega í fjöldagröfum sem enn þann dag í dag finnast í landinu en áætlað er að alls átta þúsund múslimar, bæði karlar og drengir, hafi verið teknir af lífi af hermönnum Serba. Var um að ræða verstu fjöldamorð í Evrópu síðan í seinni heimsstyrjöldinni en daglega finnast nýjar grafir og er þess enn langt að bíða að tekist hafi að bera kennsl á alla þá sem í þeim eru. Þau 338 lík sem greftruð voru í gær eru meðal þeirra fyrstu sem borin hafa verið kennsl á hingað til og voru fórnarlömbin á aldrinum 15 til 77 ára. Atburðirnir sem kenndir eru við Srebrenica standa lifendum ljóslifandi fyrir augum. Í júlí 1995 marséruðu hersveitir Bosníu-Serba framhjá varðsveitum Sameinuðu þjóðanna og höfðu á brott með sér alla þá karlmenn og drengi sem í náðist. Margir þeirra sem þátt tóku í voðaverkunum eru frjálsir menn og hafa fáir verið dregnir til ábyrgðar vegna hroðaverkanna fyrir níu árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×