Erlent

Blair íhugaði afsögn

Tony Blair býr sig undir pólitíska orrahríð í næstu viku. Þá er væntanleg skýrsla um gallaðar upplýsingar sem lagðar voru stríðinu í Írak til grundvallar, auk þess sem aukakosningar fara fram sem talið er að Verkamannaflokkurinn gjörtapi.  Gustað hefur um Tony Blair undanfarna mánuði og samkvæmt fréttum BBC þótti honum nóg um í síðasta mánuði og íhugaði afsögn. Nánustu samstarfsmenn urðu að tala hann til og fá hann til að halda áfram. Fullyrðir BBC að fjórir ráðherrar hafi lagt hart að Blair að gefast ekki upp. Kannanir hafa sýnt mikla óánægju almennings með Blair undanfarið, auk þess sem pólitískir andstæðingar og jafnvel samherjar hafa gagnrýnt hann harðlega. Fréttaskýrendur segja enn mikla spennu innan stjórnarinnar, einkum milli þeirra Blair og Gordons Brown, fjármálaráðherra og líklegasta eftirmanns Blairs á forsætisráðherrastóli. Búist er við því að gagnrýnisraddir gerist enn háværari í næstu viku, þegar skýrsla um upplýsingar bresku leyniþjónustunnar í aðdraganda Íraksstríðsins verður birt. Á miðvikudag greinir Butler lávarður frá niðurstöðum sínum og er gert ráð fyrir að hann gagnrýni leyniþjónustuna og upplýsingarnar sem lágu stríðsrekstrinum til grundvallar, rétt eins og nefnd Bandaríkjaþings gerði í gær. Á Bretlandi er hins vegar gert ráð fyrir því að ríkisstjórninn fái stærsta skellinn og segir fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustunefndar á Bretlandi, að Blair verði að taka ábyrgð á því sem miður fór. Í síðustu viku viðurkenndi Blair að líkast til myndu eiturefna- og gjöreyðingarvopn Íraka aldrei finnast, en þau voru meginástæða stríðsins. Dagblaðið Independent greinir frá því í dag, að Blair sitji nú með nánustu samstarfsmönnum sínum og leggi á ráðin um varnaraðgerðir í næstu viku. Til viðbótar við skýrslu Butlers lávarðar verða aukakosningar í suður Leicester og Birmingham Hodge Hill, sem stjórnmálaskýrendur telja víst að Verkamannaflokkurinn muni tapa. Blair til armæðu mun Gordon Brown hins vegar flytja jákvæðar fréttir í næstu viku, og þar með enn auka á spennuna á milli þeirra félaga, og verður það tæpast til að draga úr umræðu um brotthvarf Blairs úr stjórnmálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×