Erlent

Endurfundir liðhlaupa

Bandarískur liðhlaupi í Norður-Kóreu hitti í dag japanska eiginkonu sína í fyrsta sinn í tvö ár í Indónesíu. Allar líkur eru á að hann verði að snúa aftur til Norður-Kóreu en hún til Japans; þeim virðist ekki skapað nema að skilja. Árið 1965 var Charles Jenkins 24 ára gamall liðþjálfi í Bandaríkjaher, staðsettur í Suður-Kóreu. Kalda vetrarnótt heyrðu undirmenn hans þrusk, og Jenkins ákvað að kanna hvað það væri. Eftir það hvarf hann, en skaut upp kollinum skömmu síðar norðanmegin landamæranna. Bandaríkjastjórn segir að hann sé liðhlaupi, en ættingjar hans telja að honum hafi verið rænt og hann heilaþveginn. Í Norður-Kóreu kvæntist hann japanskri konu árið 1980, en henni hafði verið rænt frá Japan. Saman eignuðust þau tvær dætur. Hvað Jenkins hefur aðhafst undanfarna fjóra áratugi í Norður-Kóreu er á reiki, en talið er að hann hafi starfað með áróðursmeisturum stjórnvalda og notið mikilla forréttinda. Árið 2002 yfirgaf eiginkonan, Hitomi Soga, Norður-Kóreu ásamt fleiri Japönum sem rænt hafði verið, en fjölskylda hennar varð eftir. Í dag hittust þau í Indónesíu, þar sem miklir fagnaðarfundir urðu. Jenkins og dætur hans fóru með leyfi norður-kóreskra yfirvalda, enda gert ráð fyrir því að þau snúi þangað á ný. Eiginkonan Hitomi vonar þó að henni takist að telja Jenkins á að koma með til Japans, en hann er sagður óttast að verða framseldur til Bandaríkjanna. Óljóst er hvert næsta skref verður, og hvernig þessi óvenjulega fjölskyldusaga endar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×