Erlent

Hundruðir tonna af olíu lekið út

Megnið af þeirri olíu sem var um borð í togaranum Guðrúnu Gísladóttur þegar skipið sökk fyrir norðurströnd Noregs fyrir tveimur árum síðan hefur lekið út. Þetta kom í ljós um helgina þegar kafarar unnu að því að tæma tanka skipsins og í ljós kom að aðeins voru eftir rúm 80 tonn af þeim 400 tonnum af dísel- og smurolíu sem áætlað var að hefði verið í tönkum skipsins þegar það sökk. Telja kafararnir að þær tilraunir sem gerðar voru til að lyfta skipinu upp af hafsbotni sé megin ástæða þess hve mikið magn hefur lekið út. Ákafar deilur hafa staðið um skipið og björgun þess af hafsbotni síðan skipið sökk. Tilraunir til að koma flakinu á land í vetur báru ekki árangur og ákvað norska stórþingið í júní að láta skipið liggja óhreyft í sumar. Margir hafa orðið til að mótmæla því þar sem mengunarhætta sé mikil og er nú ljóst að skaðinn er þegar skeður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×