Erlent

Keppinautur verður samherji

Sá sem atti lengst kappi við John Kerry í baráttunni um útnefningu Demókrataflokksins í komandi forsetakosningum var í gær kynntur til sögunnar sem varaforsetaefni hans í slagnum sem er framundan. Tilnefning öldungadeildaþingmannsins lítt reynda, John Edwards, kom fæstum á óvart enda hefur hann verið einna tíðast nefndur sem hugsanlegt varaforsetaefni demókrata og skoðanakannanir sýndu að hann væri vinsælasta varaforsetaefnið meðal almennings. Edwards er fyrrum skaðabótalögmaður sem auðgaðist á því að stefna stórfyrirtækjum. Hann hefur gagnrýnt George W. Bush Bandaríkjaforseta harkalega og sagt að undir hans stjórn væri bilið milli ríkra og fátækra að breikka. Repúblikanar birta fljótlega nýjar sjónvarpsauglýsingar til stuðnings Bush með öldungadeildarþingmanninum John McCain í aðalhlutverki. Auglýsingin á að minna kjósendur á að Kerry ræddi við McCain um að repúblikaninn tæki að sér að vera varaforsetaefni demókratans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×