Erlent

Edwards varaforsetaefni Kerrys

John Kerry, forsetaframbjóðandi Demókrata í Bandaríkjunum, valdi fyrir stundu John Edwards varaforsetaefni sitt. Edwards keppti við Kerry um tilnefningu sem forsetaframbjóðandi. Undanfarið hefur hann gert sitt ítrasta til að styðja framboð Kerrys, stjórnað fjáröflunarsamkomum og á köflum þótt helst til ákafur. Hann þótti einna líklegasta varaforsetaefnið, enda nýtur hann mikilla vinsælda, þykir hafa persónutöfra og á pólitískt bakland sitt í nokkrum þeirra ríkja, þar sem barátta Bush og Kerrys verður að líkindum einna hörðust. Það þykir hins vegar löstur að Edwards er nýliði í stjórnmálum og hefur aðeins setið á þingi í sex ár, sem er helmingi minna en Dan Quale á sínum tíma. Edwards flaug óvænt til Washington í gær, en hann var í fríi með fjölskyldu sinni á Flórída. Eftir það töldu fréttaskýrendur öruggt að Edwards yrði varaforsetaefnið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×