Erlent

Syrtir í álinn hjá Yukos

Enn syrtir í álinn hjá rússneska olíurisanum Yukos. Lánveitendur fyrirtækisins segja það í vanskilum með lán upp á marga milljarða og gengi bréfa hríðlækkar. Yukos-olíufélagið er í eigu Mikhails Khodorkovsky, sem nú er fyrir rétti sakaður um ýmis fjármálabrot. Margir telja það mál í raun herferð Kremlar til að ófrægja Khodorkovsky og koma í veg fyrir pólitísk áhrif hans, og grunar margan að aðförin að Yukos sé hluti þess máls. Skattayfirvöld hafa krafið fyrirtækið um gríðarháar skattagreiðslur, en þar sem eignir fyrirtækisins hafa verið frystar er hætt við gjaldþroti af þeim sökum. Nú hafa lánveitendur Yukos greint frá því, að fyrirtækið sé komið í vanskil með lán sem nemur sjötíu og tveimur milljörðum króna. Alexander Shadrin, talsmaður Yukos segir að verið sé að reyna stefna fyrirtækinu í gjaldþrot af skattayfirvöldum og ríkisstjórn landsins. Lánveitendurnir hafa í millitíðinni látið þau boð út ganga að þess sé ekki krafist að Yukos greiði skuldir sínar þegar í stað, en atburðurinn varð engu að síður til þess að sannfæra þá enn frekar sem telja að ríkið hyggist þjóðnýta Yukos.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×