Erlent

Eldar loga í Írak

Miklir eldar loga í suðurhluta Íraks eftir að olíuleiðsla var sprengd þar upp í morgun. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem skemmdarverk eru unnin á olíuleiðslunni. Leiðslan sem sprengd var í morgun flytur olíu frá vinnslusvæðum til útflutningshafnar skammt frá Basra. Leiðslan er önnur tveggja sem flytja olíu til útflutningshafna við Persaflóann og er afar mikilvæg fyrir olíuútflutning Íraka. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skemmdarverk eru unnin á olíuleiðslunni og t.a.m. varð að stöðva flutninga um leiðsluna í nokkra daga í júní vegna skemmdarverka. Óljóst er hvaða afleiðingar tilræðið í morgun mun hafa. Af Írak er það annað að frétta að bandarískar hersveitir hafa fundið sprengjuverksmiðju í suðurhluta Bagdad. Gríðarlegt magn vopna og peninga fannst í verksmiðjunni en nánari staðsetning hennar hefur ekki verið gefin upp. Í tilkynningu fra bandaríkjaher segir einnig að tæki til sprengjuframleiðslu, vopn og skotfæri hafi fundist í áhlaupum á fleiri staði og að 51 maður hafi verið handtekinn í aðgerðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×