Erlent

Marlon Brando allur

Stórleikarinn Marlon Brando er látinn, áttræður að aldri. Dánarorsök hefur ekki verið gefin upp en Brando var nýbúinn að ná sér af lungnabólgu þegar hann dó. Það er óhætt að segja að Marlon Brando hafi verið einn áhrifamesti kvikmyndaleikari síðustu aldar. Honum skaut upp á stjörnuhimininn í upphafi sjötta áratugarins eftir framgöngu sína í sviðsuppsetningunni á Sporvagninum Girnd. Fyrstu Óskarsverðlaunin hlaut Brando skömmu síðar fyrir hlutverk sitt í myndinni „Á eyrinni“ eða „On the Waterfront“. Alls var Brando tilnefndur átta sinnum til Óskarsverðlauna á ferlinum og hann hlaut þau tvisvar. Brando neitaði þó að taka við Óskarsstyttunni árið 1972 fyrir hlutverk sitt í Guðföðurnum til að mótmæla stefnu bandarískra stjórnvalda í garð Indjána. Þrátt fyrir glæsta sigra á hvíta tjaldinu naut Brando ekki mikillar gæfu í einkalífi sínu. Sonur hans var ákærður fyrir morð árið 1990 og dóttir hans framdi sjálfsmorð árið 1995. Síðustu ár ævi sinnar stóð Brando uppi slyppur og snauður þar sem hann tapaði miklum fjármunum í dómssölum. Á leiksviðinu var hins vegar engum ógæfusporum fyrir að fara og ekki ómerkari leikari en Jack Nicholson sagði einhverju sinni: „Brando er sá besti, leikarinn sem við lítum öll upp til. Þegar hann hverfur af sjónarsviðinu færast allir aðrir einu sæti ofar.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×