Erlent

Nató þjálfar Íraksher

Atlantshafsbandalagið ætlar að veita íröskum hermönnum þjálfun, að því er Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri Nató, sagði í gær á leiðtogafundi Nató í Tyrklandi. Hugmyndin er sú að senda bæði leiðbeinendur í þessu skyni á vegum Nató til Íraks, og gefa íröskum hermönnum kost á að koma til Natóríkja til þess að fá þar þjálfun. Ágreiningur er þó enn milli Bandaríkjanna og annarra Natóríkja um það hversu viðamikil þátttaka Natóríkjanna í þessari þjálfun verður. "Ég get ekki gefið upp nein smáatriði varðandi fjölda ennþá," sagði de Hoop Scheffer. Frekari upplýsingar fást þó væntanlega þegar leiðtogar Natóríkjanna 25 samþykkja tillögur um þessa þjálfun á fundi sínum í Istanbúl í dag. Bæði Frakkar og Þjóðverjar segjast ekki ætla að senda neina hermenn til Íraks, en vilja heldur taka þátt í að þjálfa íraska hermenn annars staðar. "Það er samkomulag um að Nató hjálpi til við þjálfun en Frakkland hefur ennþá áhyggjur og fyrirvara um þátttöku Nató sem slíks," sagði Catherine Colonna, talskona Jaques Chiracs Frakklandsforseta. Þótt leiðtogar Evrópuríkjanna í Nató hafi þannig samþykkt að taka þátt í þjálfun íraskra hermanna er samt langt frá því að þeir gangi jafnlangt og bandarísk stjórnvöld vildu, því þau höfðu gert sér vonir um að Natóríkin sendu fjölmennt lið til Íraks til þess að koma á reglu þar í landi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×