Erlent

Olíubíll ók á strætisvagn

Níutíu létust þegar olíubíll með sautján þúsund lítra af bensíni ók á kyrrstæðan strætisvagn í suðurhluta Írans í gærkvöldi. Líkin eru svo illa farin að erfitt er að bera kennsl á þau. Sex strætisvagnar biðu hjá eftirlitsstöð í bænum Zahedan í suðurhluta Írans í gærkvöldi, þegar olíubíllinn kom akandi og lenti á einum vagnanna með þeim afleiðingum að gríðarleg sprenging varð. Logar eldsins læstu sig í hina strætisvagnana sem urðu alelda á skammri stundu. Sautján þúsund lítrar af bensíni voru í olíubílnum. 90 manns urðu eldinum að bráð og yfir hundrað eru slasaðir. Aðstæður á slysstað eru sagðar skelfilegar, og lík þeirra sem fórust eru óþekkjanleg eftir brunann. Björgunarmenn segja raunar erfitt að sjá hvað er lík og hvað ekki, allt brann sem brunnið gat. Bílslys eru mjög algeng í Íran og tala þeirra sem týna lífi í ýmiskonar umferðarslysum er há. Í þetta skipti virðist óheppileg staðsetning eftirlitsstöðvar skömmu eftir beygju vera ein meginástæða þess hvernig fór. Þjóðvegurinn sem liggur í gegnum bæinn Zahedan er meginleiðin frá Afganistan, og vegur sem eiturlyfjasmyglarar nota mikið. Af þeim sökum eru eftirlitsstöðvar margar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×